Í skólakerfinu finnast börn sem á einhvern hátt skara fram úr í námi. Oftast er talað um bráðger börn, eða afburðagreind. Hin síðari ár er hugtakið bráðger mönnum tamara, en það vísar til þess að vera snemmþroska, fljótger eða bráðþroska. Erlendis eru skiptar skoðanir um hugtök sem nota má yfir þessa sérstöku hæfileika.

Ensku hugtökin gifted, og talented eru notuð yfir börn með annars vegar sérstaka námshæfileika (e. gifted) og hins vegar hæfileika á ákveðnum sviðum til dæmis í tónlist, listum o.fl. (e. talented) Greindarhugtakið (e. intelligence) sem mælt er með greindarprófum er ekki talið nægilegt til að meta börn og unglinga í hóp bráðgerra  nemenda. Sömuleiðis eru almenn kunnáttupróf ekki talin góð mælitæki til finna þessa nemendur (Winebrenner, 2001). Sambland af mörgum greinandi þáttum þarf að vera til staðar svo hægt sé að koma auga á bráðgera nemendur því þeir geta leynst, til að mynda í skjóli hegðunarerfiðleika.

Susan Winebrenner (2001) skilgreinir bráðger börn (gifted) sem: Nemendur sem hafa hæfileika/getu til að tileinka sér námsefni að minnsta kosti tveimur árum eldri nemenda eða tveimur árum ofar miðað við námskráviðmið bekkjar. Pólskur sálfræðingur Kazimierz Dabrowski (1902-1980) athugaði bráðger börn og komst að þeirri niðurstöðu að þau eru næm og áhugasöm fyrir öllu í umhverfi sínu og áreiti umhverfisins hafi sterk áhrif á þau (overexcitabilities-OE) (Winebrenner, 2001).

Sérstakir hæfilekar á ákveðnum sviðum eða afburðagreind getur birst mismunandi hjá nemendum með ólíka eiginleika og upplag. Hægt er að flokka  bráðgera nemendur niður eftir birtingarformi:

 • Fullkomnunarsinninn trúir því að það skipti meira máli hvað hann getur heldur en hver hann er. Þú öðlast virðingu með því að vera fullkominn. Hann setur sér oft of há og erfið markmið. Einnig forðast hann stundum verkefni sem þarf að hafa fyrir (krefjast vinnu eins og stærðfræði). Hann vill ekki láta aðra sjá að það þarf að hafa fyrir hlutunum. Þú ert klár ef þú þarft ekki að verja löngum tíma til náms. Hann á erfitt með að taka gagnrýni og er sjaldnast ánægður með frammistöðu sína.
 • Hinn skapandi hugsuður hefur fjörugt ímyndunarafl og sér endalausa möguleika til lausnar verkefnum. Bætir við athugasemdum sem öðrum nemendum kom ekki til hugar og fylgir ekki alltaf leiðbeiningum. Hann þarf ekki endilega að vera skipulagður og á oft erfitt með að henda reiður á vinnu sína (Winebrenner, 2001).
 • Tvístefna-birtingarform í tvær áttir (e. twice-exceptional). Sum bráðger börn sýna ótrúlega hæfni á tilteknum sviðum en eru veikari á öðrum Um 10-30% barnanna eiga við einhvers konar námsörðugleika að etja (Winebrenner, 2001). Wendy Stuart, sérfræðingur í bráðgerum nemendum, talar um GLD nemendur (Gifted and Learning Disabled) sem þýðir einfaldlega bráðgerir nemendur með námsörðugleika (Montgomery, 2003). Dæmi eru um að þessir nemendur vinni hægt og fái slakar einkunnir á prófum þar sem tíminn skiptir máli. Oft skortir þá árangursríka skipulagningu og námstækni. Hæfileikar þeirra eru oft sýnilegri utan hinna hefðbundnu skólaverkefna. Nemendur í þessum flokki geta átt auðveldara með að tjá sig munnlega en skriflega. Lestrarfærnin getur verið fyrir neðan meðallag en nemandinn verið hafsjór af fróðleik um tiltekið efni. Í þessum flokki geta verið ofvirk börn/börn með athyglisbrest og börn með Asperger heilkenni (Montgomery, 2003).
 • Í flokknum nemendur sem ná ekki settu marki (e. underachievers) eru þeir sem sýna misræmi á milli frammistöðu og hæfileika. Frammistaðan er ekki í samræmi við ætlaða getu. Undirliggjandi orsakaþættir geta til dæmis verið fullkomnunarárátta (getur valdið prófkvíða), verkefni eru ekki við hæfi (of auðveld eða erfið), skortur á tækifærum nemenda til að sýna hvað í þeim býr, verkefni sem vekja ekki áhuga eða hafa tilgang að mati nemenda, ýmsir fjölskylduhagir sem hafa áhrif á frammistöðu o.s.frv. Ef kennari spyr sig þeirrar spurningar afhverju vel gefinn nemandi fær slakar einkunnir ætti hann að kanna einhverja af ofangeindum þáttum (Winebrenner 2001; Montgomery 2003).
 • Nemendur frá öðrum menningarheimum eru þeir sem tilheyra minnihlutahópum í sinni víðustu mynd, Þeir ná oft ekki að sýna hæfileika sína þar sem stöðluð próf eru viðhöfð. Prófin eru með ákveðnu orðalagi sem er ekki kunnuglegt og þau eru byggð á afmarkaðri reynslu sem tilheyrir annarri menningu. Fjárhagur fjölskyldna og munur á lífsstíl getur einnig leikið stórt hlutverk (Winebrenner, 2001).

Einkenni

Ekki er alltaf auðvelt að koma auga á bráðgera nemendur, en ýmis einkenni eru þó oft til staðar sem  vert er fyrir kennara að hafa vakandi auga með. Bráðger börn sýna yfirleitt ákveðin námsleg einkenni og hegðun þeirra er oft sérstök. Þau eru yfirleitt fljótari en jafnaldrar að læra nýtt námsefni og muna það svo vel að upprifjun er næstum óþörf og eiga auðvelt með að fást við flókin og huglæg (e. abstract) hugtök. Einnig hafa þau gífurlegan áhuga á einu eða fleiri viðfangsefnum og myndu vilja verja meiri tíma ef mögulegt væri til að fást við og kafa dýpra í eitt ákveðið efni. Þessi börn þurfa ekki að horfa á kennarann til þess að fylgjast með hvað sagt er í kennslustundum. Bráðger börn virðast geta notað margar stöðvar í heilanum samtímis og fengist við fleiri en eitt verkefni í einu (Winebrenner ,2001)

Önnur einkenni er geta tengst námi og hegðun hjá bráðgerum börnum eru:

 • Þau eru athugul, stundum varkár, í tengslum við nám og frammistöðu í samanburði við jafnaldra.
 • Geta sýnt mismunandi þroskaeinkenni eftir þroskasviðum.
 • Orðaforði og talmál mjög þroskað miðað við jafnaldra.
 • Framúrskarandi minni.
 • Læra auðveldlega án utanaðkomandi aðstoðar.
 • Hugsa á hærra plani en jafnaldrar, hugsa óhlutbundið.
 • Hafa nákvæma skynjun á tengsl orsakar og afleiðingar.
 • Sjá oft mynstur, tengsl og samhengi sem aðrir sjá ekki.
 • Koma oft með betri hugmyndir að lausn verkefna. Nefna þær við samnemendur, kennara og aðra fullorðna, en ekki endilega á jákvæðan hátt.
 • Kjósa frekar flóknari aðferðir við lausnir á verkefnum. Finnst það meiri áskorun.
 • Yfirfæra hugtök og nám yfir á nýjar aðstæður. Sját engsl milli ótengdra hugmynda og athafna, að öðrum finnst. Þurfa ekki endilega að geta útskýrt leiðina að lausninni.
 • Vilja deila allri þekkingu sinni með öðrum. Elska að vita allt og útskýra ástæður.
 • Eru forvitin um alla hluti og spyrja endalausra spurninga. Hvert svar leiðir til annarrar spurningar.
 • Eru áhugasöm og næmir rannsakendur. Vilja ekki missa af neinu.
 • Bráðger börn eru oft tilfinninga- og hrifnæm.
 • Hafa oft mörg og óvenjuleg áhugamál.
 • Hafa áhuga á að gera hluti á sinn hátt. Vilja vinna sjálfstætt.
 • Hafa mikla orku. Eiga stundum erfitt með að ná sér niður á kvöldin fyrir svefn.
 • Eru næm á fegurð og tilfinningar og væntingar annarra.
 • Hafa oft þroskaða siðferðis- og réttlætiskennd. Spá fyrr en jafnaldrar í heimsmálin.
 • Hafa oft þróaða kímnigáfu.
 • Líkar að vera í forsvari fyrir eitthvað. Geta verið meðfæddur stjórnendur.

Ofangreind einkenni þurfa ekki flest eða öll að vera til staðar til þess að nemandi teljist bráðger, en eftir því sem fleiri þættir fara saman aukast líkurnar á að svo sé.

Námsþörfum ekki mætt

Ef bráðger börn telja að námsþörfum þeirra sé ekki mætt getur það birst í hegðun sem álitin er neikvæð af kennurum. Dæmi um slíka hegðun er:

 • Nemandinn neitar að að vinna ákveðið verk eða vinnur illa.
 • Verður pirraður gagnvart öðrum í bekknum ef hann fær ekki athygli, t.d. ef hann sýnir framfarir.
 • Gerir uppreisn gegn venjum og því sem er fyrirfram ákveðið.
 • Spyr áleitinna spurninga. Krefst útskýringa á hvers vegna hlutir eru gerðir á ákveðinn veg.
 • Berst á móti boðum og skipunum frá öðrum.
 • Dreymir dagdrauma.
 • Einokar umræður í bekknum.
 • Sýnir jafnöldrum og kennurum stjórnsemi.
 • Sýnir óþolinmæði gagnvart eigin ófullkomnun og annarra.
 • Er viðkvæmur fyrir gagnrýni.
 • Neitar að gera eins og hinir.
 • Streitist oft á móti samvinnunámi.
 • Er með hávaða og truflar aðra.
 • Verður bekkjartrúður.
 • Sýnir óþolinmæði ef hann fær ekki að svara og kallar fram í fyrir öðrum.

(Winebrenner, 2001)

Kennarinn þarf að breyta námsskránni hjá viðkomandi barni til þess að draga úr upplifun á slíkri hegðun. Hann þarf að hafa vald á ýmsum kennsluháttum er henta bráðgerum börnum.

Kennsluhættir

Dæmi um kennsluhætti sem geta hentað er að gera námssamning við nemanda; leiðbeina nemanda í sjálfsnámi þar sem hann dýpkar þekkingu sína á ákveðnu efni og láta nemendur hafa ólík verkefni sem þeir fá síðan að kynna fyrir samnemendum. Nauðsynlegt er að kanna getustig nemanda í byrjun.  Einnig er mikilvægt að nemandinn fái tækifæri til að skila af sér vinnunni og hann fái viðbrögð frá kennaranum. Kennarar verða að vera  meðvitaðir um hvernig heppilegt sé að velja í hópa svo að bráðgerum nemendum finnist þeir ekki alltaf vera í einhvers konar kennsluhlutverki (sem mörgum þeirra líkar frekar illa) o. s. frv.

Sérstök námskeið

Sérstök námskeið eru stundum haldin fyrir bráðger börn. Þeim er ætlað að vera stuðningur og viðbót við kennslu í almennum bekk. Nemendur hitta þar jafningja sína, ef svo má að orði komast. Þá er gott að nota tækifærið og leggja áherslu á samvinnunám. Bráðger börn eiga oft erfitt með samvinnunám inn í almennum bekk þar sem námsgeta nemenda er mjög mismunandi, enda lenda þau þar oft í hlutverki leiðbeinanda. Einstaklingsmiðað nám getur hentað þeim betur innan bekkjarins. Stundum fá bráðgerir nemendur sérstaka kennslu og verkefni í lestri og stærðfræði. Innihald viðameiri námskeiða sem haldin hafa verið fyrir bráðger börn tengjast meira félags- og raunvísindum (Winebrenner, 2001). Val nemenda á slík námskeið er ekki auðvelt og þykir sjálfsagt hverjum sinn fugl vera fagur. Varast ber að velja nemendur í hópa eingöngu eftir einkunnunm (bráðgerir nemendur sýna oft ekki sína réttu hlið). Mat í víðara samhengi til dæmis í formi  viðtala við nemendur, foreldra og kennara verður einnig að koma til. Erfitt er þó að benda á hina fullkomnu aðferð. Á vegum Fæðslumiðstöðvar Reykjavíkur, Landssamtakanna Heimilis og skóla og Háskóla Íslands  voru haldin námskeið fyrir bráðger börn og í áfangaskýrslu um framkvæmd og mat á verkefninu frá árinu 2002 kemur fram að reynt hafi verið að mæta þörfum bráðgerra nemenda með dýpkun og breikkun á viðfangsefnum í stað hröðunar í námi. Mikilvægt er að nemendurnir fái endurgjöf á vinnu sína og geti rætt þau meðal jafningja. Atriði sem gáfu góða raun á námskeiðunum voru til að mynda þátttaka háskólakennara og að fá tækifæri til að kynnast aðstæðum í húsakynnum Háskóla Íslands; hitta jafningja og vinna með þeim; fá ögrandi viðfangsefni og kynna þau í lok námskeiðsins og fá tækifæri til að  vinna með hugmyndir og hugtök við raunaðstæður. Önnur atriði sem voru talin þarfnast endurskoðunar voru til að mynda hve erfitt þótti að samræma tíma nemenda og kennara; fá húsnæði á þeim tíma sem hentaði; tengja verkefnin betur heimaskólum þátttakenda svo fleiri nytu góðs af; of mikil breidd í þroska nemenda (10-12 ára og 11-13 ára); greiða þurfti fyrir þátttöku, bæta boðskipti o. fl.  (Meyvant Þórólfsson, 2002)

Fjölbreytni í kennsluháttum og námsaðgreiningu er líklegast farsælasta lausnin fyrir bráðgera nemendur og sýnir hve kennarar þurfa að vera vel að sér í þeim efnum sem og að hafa þekkingu á samskiptum nemenda.

Að ala upp bráðgert barn

Mikil ábyrgð fylgir því að ala upp barn og stundum reynir á þolrifin. Að ala upp bráðgert barn er mikil áskorun. Foreldrar þurfa að hugleiða ýmsa þætti til dæmis hvaða uppeldisaðferðir þeir aðhyllast. Einnig að forðast að lenda í valdabaráttu við barnið og foreldrar þurfa að hafa samræmi í aðgerðurm. Mikilvægt er að kunna að hlusta á barnið. Ekki er ætlast til þess að barnið geti í tíma og ótíma krafist athygli foreldris heldur sé tímanum sem ætlaður er til verksins varið í óskipta athygli þannig að foreldrið sé ekki að gera eitthvað annað á meðan og hlustar með hálfum huga. Samanburður á milli sysktkina er ekki æskilegur í uppeldi. Hvert barn er einstaklingur, með sínar þarfir, áhugamál, getu o.s.frv. Nauðsynlegt er að kunna að taka á fullkomnunaráráttu sem einkennir sum bráðger börn. Mörg þeirra telja að það að vera klár sé það sama og að þurfa ekki að hafa fyrir hlutunum. Þau vilja ekki láta aðra sjá að þau þurfa að leggja sig fram um að leysa verkefnið. Munið að barnið er það sem það er en ekki það sem það gerir. Gleymið samt ekki að hrósa barninu  þegar það hefur unnið vel og lengi að erfiðu verkefni. Ef bráðgerir nemendur fá verkefni við hæfi er hugsanlegt að einkunnir þeirra lækki, því er nauðsynlegt að foreldrar slái af kröfum sínum. Stuðningur við félagslega færni er mikilvægur, það getur reynst sumum erfitt að eignast vini. Kynjamunur getur birst á bráðgerum stúlkum og drengjum. Bráðgerar stúlkur þurfa til dæmis að vera í einhverjum samskiptum innbyrðis til að viðhalda jákvæðum viðhorfum til góðs námsárangurs. Það er erfitt að synda sífellt á móti straumnum, til að mynda getur þurft að hvetja stúlkur til að þora að velja stærðfræði og raunvísindi þegar kemur að náms- og starfsvali. Drengir hafa oft meiri áhyggjur af ,,nördastimplinum” og að það sé ,,stelpulegt” að sýna námsárangur; þar getur þrýstingur frá félögum haft töluverð áhrif. Góðar fyrirmyndir gegna lykilhlutverki hjá báðum kynjum. Stjórnsamir foreldrar eiga ekki upp á pallborðið og á það reyndar við um flest börn. Þau vilja að fullorðnir séu sanngjarnir, sýni þeim virðingu og hafi tilfinningu fyrir þörfum þeirra. Bráðger börn hafa yfirleitt áhuga á mörgu og eru hæfileikarík á mörgum sviðum svo að þeim reynist stundum erfitt að gera upp hug sinn þegar kemur að náms- og starfsvali. Foreldrar þurfa að vera ófeimnir við að leita aðstoðar ef þeir telja að barni þeirra líði ekki vel í skólanum til dæmis vegna áhugaleysis, leiða eða depurðar (Winebrenner, 2001).

Samantekt

Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hugtakið bráðger börn. Ýmist er talað um ,,gifted” eða ,,talented” í enskumælandi löndum. Hægt er að grófflokka bráðger börn í mismunandi flokka eftir birtingareinkennum. Bráðger börn sýna yfirleitt námsleg einkenni og hegðun þeirra er oft sérstök. Námslegu einkennin eru oftast jákvæð en hegðunin bæði jákvæð og neikvæð. Einstklingsmiðað nám hentar þessum nemendum vel í almennri bekkjarkennslu en samvinnunám er heppilegt þegar nemendur með svipaða getu vinna saman í hópum eða jafningjar hittast á sérsökum námskeiðum fyrir bráðger börn.

Kennarar verða að hafa ýmsar kennsluhætti á valdi sínu og nýta þá til að koma til móts við bráðgera nemendur og foreldrar bráðgerra barna þurfa oft stuðning í uppeldishlutverkinu.