Pólitískt vald á sviði stefnumótunar og ákvarðanatöku í menntamálum og faglegar rannsóknarniðurstöður fræðimanna eiga ekki alltaf samleið. Fræðimaðurinn reynir að vera eins hlutlægur í rannsóknum sínum og mögulegt er. Þeir sem hafa hið pólitíska vald hafa oft annarra hagsmuna að gæta, sér í lagi fjárhagslegra. Það getur verið vandasamt að koma niðurstöðum rannsókna á framfæri og hafa áhrif á að þær séu hagnýttar til úrbóta, en mikilvægt hlýtur að teljast að rannsóknarniðurstöður fræðimanna sem kostaðar eru af almannafé séu notaðar við stefnumótun og ákvarðanatöku á sviði menntamála.