Hugtakið námskrá felur í sér, í sinni víðustu mynd, skipulag á skólastarfi á tilteknum skólastigum (Marsh og Willis, 2007), en námskrár og námskrárgerð eiga sér langa sögu, allt aftur til skóla Forn-Grikkja (Andri Ísaksson, (1983). Saga námskrár hefur einkennst af átökum og togstreitu ólíkra hugmynda um hvaða viðmið eigi að hafa í forgangi, til að mynda námsgreinar, þarfir barnsins, þarfir þjóðfélagsins og þar frameftir götum (Ingólfur Jóhannesson, 1998). Námskrárhugtakið felur í sér marga þætti og hafa ólíkar skilgreiningar ýmissa fræðimanna verið settar fram á margbreytilega vegu. Almenna skilgreiningin felur í sér að námskrá sé kerfisbundin áætlun sem fjalli um hvað skuli lært og kennt í skólum. Námskrá er líka áætlun og sem slík þurfi hún að greina frá markmiðum eða stefnu með einhverjum hætti, fela í sér vísbendingu um röð efnisatriða (Andri Ísaksson, 1983).

Námskrá og stefnumótun

Í nýjum lögum og aðalnámskrá er útgangspunkturinn við mat á fjölda námseininga vinnuframlag nemenda en ekki fjöldi tíma námsgreinar í stundaskrá eins og áður var og ný aðalnámskrá framhaldsskóla gerir ráð fyrir tilteknum þekkingar-, leikni og hæfniviðmiðum á mismunandi erfiðleikaþrepum frá1 til 3 (Aðalnámskrá framhaldsskóla, 2011). Þegar breytingar á námskrá eru fyrirhugaðar beinist athyglin að því hve mikið af hinni opinberu stefnumótun og aðalnámskrá rati inn í skólanámskrána og síðan í framkvæmd í kennslustofunni þar sem kennarinn og nemendur koma saman. Ný lög og ný aðalnámskrá gefa kjörið tækifæri til að skoða og fylgja eftir breytingum frá stefnumótun til framkvæmdar í íslenska framhaldsskólakerfinu.

Aukið umboð skóla til útfærslu námskrár

Með nýjum lögum (2008) og aðalnámskrá (2011) fellur Mennta- og menningarmálaráðuneytið frá því að setja fram námsbrautir, ákveða inntak þeirra, og gefa út áfangalýsingar. Í staðinn eiga framhaldsskólar sjálfir að gera tillögur að námsbrautum og áfangalýsingum, hvort sem um er að ræða listnám, bóknám, starfsnám, nám fyrir fatlaða o.s.frv. Ábyrgð á námskrárgerð færist í auknum mæli til framhaldsskólanna. Þeir eiga að gera tillögur um fyrirkomulag, samhengi og inntak náms í samræmi við viðmið, sniðmát og reglur um gerð námsbrautalýsinga. Þannig fái framhaldsskólar aukið umboð til að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu hvers skóla, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs (Aðalnámskrá, 2011).

Aðalnámskráin er helsta stjórntæki fræðsluyfirvalda til að tryggja samræmi og samhæfingu skólastarfs við útfærslu á hinni sameiginlegu menntastefnu. Hún er ramminn utan um starf stjórnenda, kennara og starfsfólks skóla, veitir nemendum og forráðamönnum upplýsingar um þau viðmið sem eru í gildi og er jafnframt grundvöllur mats á skólastarfi og námsmats í skólum (Aðalnámskrá, 2011).

Grunnþættir í aðalnámskrá

Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla (2011) er í fyrsta sinn greint frá sex grunnþáttum í íslenskri menntun. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Hinir sex grunnþættir menntunar eiga að endurspeglast í skólastarfi allra skólastiga. Grunnþættirnir í aðalnámskránni eiga að fléttast inn í allt skólastarf og hugmyndirnar að baki þeim eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir eiga að vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem nemendur eiga að afla sér. Sérstaklega er þess getið að efnisval og inntak náms, kennslu og leiks skuli mótast af grunnþáttunum; starfshættir og aðferðir, sem nemendur læra, séu undir áhrifum hugmynda sem fram koma í umfjöllun um grunnþættina; vinnubrögð kennara og annarra, sem starfa í skólum á að mótast af grunnþáttunum og stuðla þannig að sjálfstæði, frumkvæði og þróun í skólastarfi. Þegar meta á skólastarf verður síðan að skoða hvernig grunnþættirnir hafa sett mark sitt á nám, kennslu og skólastarf í heild sinni (Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 , 2. útg. með breytingum 2015).