Skólamenning varpar ljósi á sérstöðu hvers skóla, aðgreinir þá frá öðrum skólum. Aukið sjálfstæði skóla varpar skýrari sýn á fyrir hvað þeir standa, skapar sterkari ímynd hvers skóla og skýrari skólamenningu. Skólamenningin tekur á sig mismunandi myndir út frá sögu sérhvers skóla, nánasta umhverfi og kennslufræðilegum áherslum (Deal og Peterson, 1999). Sameiginleg viðmið, gildi og norm eru nefnd sem einkenni skóla sem taldir eru ná árangri með nemendur.

Skólamenning og menningin í skólastofunni

Menningu skóla og menninguna í skólastofunni er vert að skoða þegar hugað er að ólíkum móttökuskilyrðum skóla við innleiðingu námskrárbreytinga, til að mynda  sögu skóla af nýbreytni (Bernstein, 2000; Böje, 2008; Atli Harðarson, 2010). Skólamenningin er samofin kennslumenningunni í skólastofunni þar sem samtal nemenda og kennara fer fram, í sjálfu námsumhverfinu. Skólar og kennarar hafa sínar eigin kenningar um hina ákjósanlegu námskrá og það er eðlilegt að veita hugmyndum viðnám sem ekki samrýmast þeim (Meyvant Þórólfsson, Eggert Lárusson og M. Allyson Macdonald, 2009). Erfitt er því að samræma kennslu í öllum skólum, því auk viðmiða úr aðalnámskrá, sem skólum ber að fara eftir, hefur sérhver skóli mótað sín viðmið eins og í samskiptum við nemendur og undibúningi sinna nemenda, sem jafnframt er hluti af skólamenningu hvers skóla (Meyvant Þórólfsson, 2013). Framhaldsskólar á Íslandi þurfa ekki að standast viðmið um þekkingu í formi samræmdra prófa og hafa því meira frelsi en grunnskólinn hvað það varðar og ætla má að framhaldsskólar líti frekar til háskóla varðandi viðmið um þekkingu. Auk þess hafa framhaldsskólarnir merira sjálfstæði til að móta sín eigin námsframboð og námsbrautir (Lög nr. 92/2008; Aðalnámskrá, 2011), þeir fá meira svigrúm til að þróa sína sérstöðu og draga fram styrkleika sína.

Umhverfi og orðræða uppeldis og kennslu í tengslum við hina faglegu þekkingu námsgreinanna í sjálfri skólastofunni, eða menningin í skólastofunni, er oft önnur en í hinni áformuðu námskrá, það er að segja að sú námskrá sem áformuð er áður en til kennslu kemur er ekki sú námskrá sem kemur til framkvæmda í kennslustofunni. Þetta leiðir hugann aftur að kennurunum, því í skólastofunni eru það kennararnir með sinn bakgrunn og sína kennslumenningu sem stýra því sem þar fer fram.

Menning hvers skóla felur í sér sameiginlegar grundvallarhugmyndir um hvaða gildi, væntingar og viðhorf eru höfð að leiðarljósi í skólastarfinu. Staðsetning skóla og félagslegt umhverfi  þeira skiptir máli í þessu samhengi.