Hlutverk kennara í skólaþróun

Þó svo að stjórnendur gegni mikilvægu hlutverki í breytingastarfi innan skóla, fer það einnig eftir kennurunum í skólanum hvernig breytingaferlið í skólasamfélaginu heppnast. Þróun námskrár snýst á endanum um starfsþróun kennarans (Stenhouse, 1980). Hins vegar er flókið að henda reiður á nákvæmlega öllu ferlinu sem á sér stað þar til það er í höndum kennara að miðla námskránni til nemenda í kennslustofunni, hvað það er sem kennarinn nákvæmlega gerir eða gerir ekki. Þó er vitað að kennarar gegna lykilhlutverki í tengslum við innleiðingu nýrrar námskrár. Þeirra hlutverk er að brúa eða spanna gapið á milli áætlaðrar námskrár og námskrár í reynd eða framkvæmd  (Marsh og Willis, 2007).

Það er erfitt að reyna að þvinga fólk til breytinga segir Schein (2010), því þá gerist oft lítið sem ekkert, þess vegna skiptir sjálfviljug þátttaka kennara meginmáli þegar bæta þarf kennslu og skólasamfélag. Hargreaves (1989) er því sammála og segir að það sé á ábyrgð kennarans að bera námskrá stefnumótunarðila á borð fyrir nemendur í skólastofunni, kennarinn gegni lykilhlutverki í framkvæmd námskrár í skólastofunni, hugmyndir hans og viðhorf séu grundvallarþættir í ferli breytinga á námskrá. Margar af þessum hugmyndun séu svo greyptar í samfélag kennara og kennarastarfið, eða kennslumenninguna, að þær geta hindrað yfirfærslu opinberrar námskrár inn í kennslustofuna til nemenda.

Í sama streng tekur Fullan (2007) og segir kennara vera í mikilvægu hlutverki þegar kemur að þróun nýrrar skólanámskrár. Þeir þurfi að horfast í augu við nokkrar kjarnabreytingar sem eru endurgerð eða endurnýjun sjálfrar námskrárinnar; notkun námsefnis í tengslum við nýja námskrá og breytingar á kennsluháttum, til að mynda í tengslum við virkni, leikni og hegðun.  Það getur þurft að gera breytingar á grundvallaratriðum eða skilningi á því á hvaða hátt námskráin hefur áhrif á nám. Viðhorf, áhugi og starfshættir kennara skipta meginmáli. Breytingar snúast um að fá fólk til að breyta fyrri viðhorfum sínum og hugmyndum í tengslum við starfshætti (Fullan, 2007).