Ný aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla leit dagsins ljós árið 2011. Þar kemur fram hvaða hlutverki hún eigi að þjóna í birtingu menntastefnu stjórnvalda, námsframboðs og þeirra námskrafna sem skólum og starfsfólki þeirra ber að fylgja við skipulagningu skólastarfs. Aðalnámskráin er helsta stjórntæki fræðsluyfirvalda til að tryggja samræmi og samhæfingu skólastarfs við útfærslu á hinni sameiginlegu menntastefnu. Hún er ramminn utan um starf stjórnenda, kennara og starfsfólks skóla, veitir nemendum og forráðamönnum upplýsingar um þau viðmið sem eru í gildi og er janframt grundvöllur mats á skólastarfi og námsmats í skólum (Aðalnámskrá, 2011)

Breytingar á menntastefnu og skólastarfi geta vakið andstöðu og því er mikilvægt að reyna að draga úr henni við breytingarnar innan skólans. Eisner (1999) segir að það sé auðveldara að breyta um stefnu í menntamálum heldur en að breyta því hvernig skólar starfa.