Pólitísk umræða og breytingar á skólastarfi
Umræðan um breytingu á aðalnámskrá framhaldsskóla hefur tengst umræðunni um styttingu náms til stúdntsprófs og á stundum hefur í fjölmiðlum (RÚV, 2013) meira farið fyrir umræðu um styttingu náms til stúdentsprófs heldur en beinlínis að rætt sé um hvað hin nýju lög (nr. 92/2008) og aðalnámskrá (2011) hafi í för með sér og hvert sé inntak náms. Árið 2003 kom út á vegum menntamálaráðuneytisins áfangaskýrsla um styttingu náms til stúdentsprófs. Þar voru meðal annars tilgreind þau rök fyrir styttingu náms til stúdentsprófs að nemendur ynnu of mikið meðfram námi í framhaldsskóla og hagkvæmara væri að þeir myndu ekki vinna með námi og þá ljúka námi fyrr (Menntamálaráðuneytið, 2003). Skoðanir hagsmunaaðila í atvinnulífinu hafa einnig verið áberandi hvað varðar breytingu á framhaldsskólanum og hafa frekar einkennst af umræðunni um styttingu náms til stúdentsprófs en sjálfu inntakinu (Samtök atvinnulífsins, 2003b). Breytingar á skólastarfi kalla á umræðu og sitt sýnist oft hverjum, en það er hinn pólitíski vettvangur sem mótar stefnuna og þar sem framkvæmdin fer fram er vettvangur skólans.
Tilurð laga um framhaldsskólann
Lög um framhaldsskóla áttu sér aðdraganda í opinberri umræðu og má benda á samanburðarkönnun á skólakerfinu á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð (Menntamálaráðuneytið, 2002), skýrslu um styttingu náms til stúdentsprófs (Menntamálaráðuneytið, 2003) og skýrslu Menntamálaráðuneytis um breytta námskipan til stúdentsprófs sem kom út í ágúst 2004. Í síðastnefndu skýrslunni kom meðal annars fram að stytting náms mundi hafa áhrif á fjölda stöðugilda kennara og leggja þyrfti niður störf (Menntamálaráðuneytið, 2004). Á þessum tíma fór rödd kennara að heyrast en ljóst var að með útkomu skýrslnanna hafði töluverð forvinna átt sér stað sem kennarar virtust ekki eiga beina aðild að (Mbl., 2005a; b; c). Í kjölfarið fór að bera á opinberri umræðu kennara til að mynda í Morgunblaðinu í nóvember og desember á miðjum tíunda áratugnum (2005, a;b). Könnun (Hildigunnur Gunnarsdóttir, 2011) byggð á opinberri umræðu kennara í Morgunblaðinu í nóvember og desember 2005, þar sem rödd framhaldsskólakennara var skoðuð í tengslum við umræðuna um styttingu náms til stúdentsprófs, sýnir að framhaldsskólakennarar beindu gagnrýnisrödd sinni sérstaklega að hinu opinbera, ráðuneyti og ráðherrum og fannst þeir hafa verið sniðgengnir við ákvarðanatökuna. Þrástefin (Foucault, 1980) sem komu fram í orðræðu kennara voru skerðing á námi, skerðing námsefnis, gjaldfelling náms, gengisfelling stúdentsprófs, minni þekking, lakari samkeppnishæfni, aukið brottfall nemenda, sparnaður hins opinbera, augljós sparnaður og hagræðing í menntakerfinu. Þeir sáu fátt jákvætt við styttingu náms til stúdentsprófs og héldu því jafnframt fram að brottfallið muni aukast því þjappa þurfi töluverðu námsefni saman, nemendur hafi minni tíma til að tileinka sér það og margir ráði ekki við þennan hraða og hrökklist frá námi. Hugsanlega má að einhverju leyti tengja viðbrögð kennara við útgáfu Menntamálaráðuneytisins á skýrslu sem bar heitið Breytt námsskipan til stúdentsprófs – aukin samfella í skólastarfi, í daglegu tali oft nefnd „Bláa skýrslan” (Menntamálaráðuneytið, 2004). Þar kemur meðal annars fram að stöðuhlutföllum kennara muni að öllum líkindum fækka í kjölfar styttingar náms og meiri áherslu eigi að leggja á starfsnám. Raddir kennara heyrast varla fyrr en svo virðist sem ákvörðun hafi verið tekin um að hrinda í framkvæmd hugmyndum um að stytta nám til stúdentsprófs í framhaldsskólum landsins. Það er ekki fyrr en seinna í ferlinu sem kennarar vinna með stefnumótunaraðilum að breytingu á aðalnámskránni, til að mynda við gerð sniðmáta í stærðfræði, íslensku og erlendum tungumálum sem birt eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011). Markmiðið með lögununum (2008) hafði hins vegar verið formað og fól meðal annars í sér hugmyndir um meira sjálfstæði framhaldsskólans þótt einnig væri kveðið á um tiltekna verkaskiptingu skóla og ráðuneytis.
Lög framhaldsskólans um verkaskiptingu skóla og ráðuneytis og gæðastjórnun
Ný lög um framhaldsskólann fela í sér meira sjálfstæði skólanna til að ákvarða starf sitt og þeim er þar gert kleift að vera með sitt eigið námsframboð. Þeir fá meira svigrúm til að þróa sína sérstöðu og draga fram styrkleika sína. Gert er ráð fyrir að að ný framhaldsskólalög styrki framhaldsskólastigið í íslensku menntakerfi og undirstriki sérstöðu og hlutverk framhaldsskólastigsins en eigi jafnframt að skapa aukið svigrúm fyrir skólana varðandi námsframboð og skipulag (Björg Pétursdóttir, 2009). Markmið með námsframboði verða að vera skýr. Jafnframt aukast kröfur á stjórnendur skólanna að sjá til þess að mat fari fram og markmið og mælitæki þurfa að vera vel skilgreind. Uppbygging gæðastjórnunarkerfis hvílir á herðum skólastjórnenda framhaldsskólans (Menntamálaráðuneytið, 2008). Gera þarf ráð fyrir að innan framhaldsskólanna sé til þekking á mati og matsaðferðum. Ytra mat kallar á meira eftirlitshlutverk og utanumhald Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sjálfsmatsaðferðir skólanna sæta ekki bara úttekt heldur er gert ráð fyrir að matið geti náð til alls skólastarfsins í heild og að fagaðilar sinni eftirlitshlutverkinu. Hlutverk ráðuneytisins er að fylgjast með að skólastarfið sé í samræmi við lög og reglugerðir, fylgjast með þróun og árangri menntakerfisins í alþjóðlegu samhengi, skipuleggja mat á hvernig menntastofnanir standa sig og miðla upplýsingum um framkvæmd og árangur skólastarfs, til að mynda hvað er vel gert. Ráðuneytið þarf að votta námsbrautir skólanna og þær verða síðan hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla (Stefán Baldursson, 2009) og í því samhengi er stuðst við viðmið og áherslur Evrópusambandsins.
Íslensk menntastefna og viðmið Evrópusambandsins
Menntastefnan sem ný lög marka tekur í mörgu mið af áherslum Evrópusambandsins um menntun og þjálfun. Áherslan er meðal annars á nám alla ævi, lykilhæfni (e. key competences), hæfniviðmið (e. learning outcomes), gæðaviðmið (e. qualification framework), að draga úr brotthvarfi frá námi, auka gæði kennaramenntunar og tengsl menntunar og atvinnulífs (Cedefop, 2012; Europa, 2011). Samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins eru meginhugtök í nýrri aðalnámskrá þekking (e. knowledge), leikni (e. skills) og hæfni (e. competence) og þeim er skipt í þrep, 1-3 í framhaldsskólanum (Aðalnámskrá, 2011). Litið er á útkomu á hæfni nemenda sem grundvallarþátt í viðmiðum (NQF-National Qualifications Framework og EQF-European Qualifications Framework) á gæðum sem eigi að auðvelda samanburð á námi á milli landa innan Evrópu, til að mynda til að auðvelda fólki að sækja um störf í öðrum löndum (Cedefop, 2012; Europa, 2011). EQF ramminn byggist á því hvaða þekkingar-, leikni- og hæfniviðmiðum nemendur þurfa að hafa náð við lok hvers þreps (Menntamálaráðuneytið, 2013a; Aðalnámskrá, 2011; Kvennaskólinn, 2009b). Vissulega verða þessar sameiginlegu áherslur að taka mið af íslenskum aðstæðum og þeim sjónarmiðum sem eru ríkjandi, því má ætla að stefnan hafi að einhverjum hluta séríslenskt yfirbragð, til að mynda að framhaldsskólinn skuli vera fyrir alla, og mótun námsbrauta sérhvers framhaldsskóla taki mið af því og þeirri sérstöðu sem hver skóli síðan hefur.